Um J.K Power
Ég heiti Júlían J.K. Jóhannson og er þjálfarinn á bak við J. K. Power Training.
Kraftlyftingar hafa verið gríðarstór hluti af mínu lífi allt frá því að ég var 15 ára gamall. Síðan þá hef ég drukkið (og borðað) í mig kraftlyftingar og alla tíð lagt áherslu á að læra af þeim sem eru lengra komnir en ég.
Mín vegferð í kraftlyftingum hófst þegar ég var 15 ára gamall og nýkominn heim úr æfingaferð í körfubolta sem við 9. flokkur Vals fórum í til Bandaríkjanna.
Áhuginn á körfubolta hafði dvínað, en ég hafði alltaf verið nokkuð sterkur og ákvað að byrja að lyfta lóðum.
Fljótlega fann ég mig gjörsamlega í lyftingum og kraftlyftingum og það var ekki aftur snúið!
Ég vildi verða stærri og sterkari og ekkert skyldi standa í vegi fyrir því!
Ég lagði mig allan fram og helgaði mig tilgangnum: að verða sterkari.
Á mínum keppnisferli hef ég náð mjög góðum árangri í kraftlyftingum, ég hef sett Íslandsmet, Evrópu- og heimsmet ásamt því að verða Evrópu- og heimsmeistari unglinga og íþróttamaður ársins árið 2019.
Mínar bestu tölur hingað til eru í búnaði 415 kg í hnébeygju, 332,5 kg í bekkpressu og 409 kg í réttstöðulyftu. Án útbúnaðar eru það 330 kg í hnébeygju, 210 kg í bekkpressu og 372,5 kg í réttstöðulyftu.
Eftir að hafa farið í gegnum öll þessi ár í kraftlyftingum sem keppandi fyrst og fremst en líka sem dómari, stjórnarmaður og fl. hef ég mest orðið var við það hversu tilfinnanlega það hefur vantað reynslumikla kraftlyftingaþjálfara á Íslandi.
Það er minn tilgangur; að geta miðlað að minni 15 ára reynslu af keppnum hér á Íslandi og erlendis. Því ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að æfa með, keppa við og tala við marga af sterkustu kraftlyftingakeppendum heims.
Það sem ég hef nefnilega séð er að kraftlyftingar eru íþrótt sem ég get hjálpað þér að verða betri í en kraftlyftingar eru líka verkfæri sem geta aukið lífsgæði þín, styrkt þig, aukið vöðvamassa og komið þér í form.